miðvikudagur, júlí 13, 2011

Æ, bara eitthvað.

Stundum gerir heimurinn mig leiða. Það gerist ekki oft. Yfirleitt heldur rammgerður varnarveggur cynísismans svekkelsinu frá, en af og til komast yfir þann vegg Mongólar vonsvikanna.

Áðan var ég í þeirri ágætu búð Europris að versla mér sokkabuxur og myndaalbúm með Sindra. Þegar við gengum út úr búðinni æxlaðist það þannig að ég hélt á myndaalbúminu og Sindri hélt á sokkabuxunum. Þegar við vorum komin inn í bíl segir Sindri í einhverju gríni að þetta hafi nú litið svolítið skringilega út og að betur hefði mátt fara. Ég skildi ekkert og spurði hvort honum þætti vandræðalegt að halda á sokkabuxum. Hann hélt nú ekki, sagði bara að þetta hefði litið svolítið skringilega út. Við nánari íhugun sagði hann að kannski hafi hann fundið fyrir smá effeminacy, kvengervingu, við það að sjást haldandi á sokkabuxum á almannafæri.

Verandi maðurinn sem ég þekki og elska komst hann að þeirri niðurstöðu að það væri rugl að hugsa svona, enda var alls ekkert meint með þessu og Sindi er vafalaust einn af þeim örfáu mönnum sem hafa snefil af skilning á því hvernig ég skil jafnrétti og femínisma... en það sem gerði mig leiða fyrir hann og heiminn og karlmenn og kvenmenn er í rauninni það að þessi hugmynd hafi skotið rótum í hugsanagang hans, að það sé eitthvað skrítið, ónáttúrulegt og óæskilegt að kvengervast af og til. Ætti ég að fara í keng og verða vandræðaleg næst þegar ég kaupi mér kassa af nöglum?

Sömu óþægindi grípa mig yfirleitt þegar talað er um að einhver kasti eða sparki eins og stelpa. Fyrst um sinn fór það í taugarnar á mér að auðvitað eru ógrynni afar hæfileikaríkra íþróttakvenna út um allan heim sem sparka og kasta mun betur en hinn almenni Pétur og Páll. Í seinni tíð hefur það hinsvegar farið í mig að þessi orðnotkun vísar til þess að það sé eitthvað rangt við það að kasta eins og stelpa. Burtséðfrá því hvort stelpur kasti langt eða stutt, fast eða laust. Bara það að þetta sé eitthvað sem haft er fyrir ungum strákum: að það sé ekki gott að gera eitthvað eins og stelpa, það finnst mér svolítið leiðinlegt. Af hverju má Sindri, jafnréttissinnaður nútímamaður, ekki standa á tómu bílastæði út á Granda með sokkabuxur í hönd, án þess að finna fyrir blygðunarkennd gagnvart samfélaginu?

Á sama tíma og þessi lenska þrífst elur almennt viðhorf og fjölmiðlun á þeirri tímalausu list að elska konur. Þessi tvískinnungur finnst mér bráðfyndinn. Gillz elskar mömmu sína, Erpur elskar mellur og enn aðrir elska þessa heillandi ósnertanlegu femínista með skringilegu viðhorfin sín. Nútímakonan er sannkölluð kóróna sköpunarverksins og það er greinilegt merki um hinn mjúka nútímamann að kunna að dýrka hana eins og gyðjuna sem hún er.

Það er mjög in að elska konur, en passaðu þig samt að elska ekki eins og stelpa.

Hlýja, Andrea

sunnudagur, september 19, 2010

Andrea, mundu að andreaba@internet.is er adressan sem þú skrifar inn þegar þú ætlar að logga þig inn hingað aftur.

Stundum þegar ég er búin að eyða of löngum tíma (segjum t.d. 5 dögum) í að gera ekkert af viti, þá fæ ég stundum samviskubit. Ekki það að ég sé eitthvað sérstaklega sett á þessa plánetu til þess að gera eitthvað af viti, ég hef einfaldlega verið alin upp við þá lensku frá blautu barnsbeini að ég þurfi stanslaust að vera að gera eitthvað af viti. Ekki bara af blessuðum foreldrum mínum, sem gegn öllum rökréttum vísbendingum trúa að ég hafi í raun eitthvað með það að gera að gera eitthvað af viti, heldur einnig blessuðu samfélaginu sem hreinlega reiknar með því að ég hafi hvöt til að gera eitthvað af viti. Ef þetta á að vera svona blæðandi augljóst, svo ég íslenski nú hugsanir mínar, hvers vegna reynist það vera svona óskaplega erfitt að halda sér við efnið og gera eitthvað af viti? Til að mynda sit ég og skrifa þetta drekkandi bjór á sunnudegi í stað þess að læra fyrir tímann í fyrramálið. Afsökunin: Ég er of hrjáð þessa stundina til að geta lesið 19. aldar rómantíkusa. Hreinlega.

Afhverju er ég svona óskaplega hrjáð? Guð einn veit. Upp úr þessu þarf ég að taka inn þunglyndislegt skemmtiefni (svo sem bíómynd, bók eða tónlist) til þess að minna sjálfa mig á að í fylgsnum huga míns hef ég grafið neikvæðan spíral narkisissma sem ég reyni ítrekað að fela fyrir lífsglaðri sjálfri mér. Því miður rifjaðist þessi leiðinlegi raunveruleiki upp fyrir mér í dag og ég hef því eyðilagt allar vonir sjálfrar minnar að læra eitthvað á þessum guðsyfirgefna degi. Upp úr þessu get ég bara vafist um fætur huga míns og verið fúl og nöldrað og pirrað sjálfa mig um að hafa ekki ennþá skipt um ljósaperu í svefnherberginu vegna þess að það er að gera mig þunglynda, þó kannski sé öryggið farið og ég þori í rauninni ekki að skipta um peru til þess eins að komast að því að öryggið sé farið. Ég vildi að kötturinn minn myndi deyja eða eitthvað, bíómyndatilfinningar virðast ekki gera það lengur fyrir mig. Æ, djók. Sorrí, Pétur, ég meinti þetta ekki. Nema smá. Línan hljómaði bara vel svona í hugsanaflæðinu sem ég kasta á intervefinn í von um að einhver af þeim örfáu sem skilja íslensku í heiminum skildu ramba hérna inn og kannski skella upp úr við tilhugsunina af því að einhver stelpa út í bæ vilji köttinn sinn feigan svo hún geti fundið til.

Hlýja, Andrea

sunnudagur, mars 14, 2010

Deyr fé, deyja frændur

Gerðist meiriháttar svikari og landráðsmaður í gær, með smá djammviskubit.

Búin að vera að myrða mitt fé á helstu knæpum borgarinnar undanfarið. Skemmtilegt og spennandi en niðurdrepandi og mannskemmandi er að vera á lausu, hef ég komist að. Á dauða mínum átti ég von, en að ég skildi stjórnast af tilfinningum mínum og leyfa þeim að hlaupa með mig í gönur! Ég þekkti eitt sinn Andreu en hún er víðsfjarri. Klisjan að fylla upp tómið ógurlega með stærðfræðikennurum eða slaufuberandi "listamönnum" er að éta mig smátt, treysti heldur engum fyrir mér, varla sjálfri mér... samt smá, ef það er camenbert í spilinu.

Ofan á allt þetta volæði þarf ég svo að fara að horfast á við raunveruleikann. Þann fyrsta maí verður undirrituð að pakka sínum föggum í rauðköflóttan klút og festa á prik og hafa sig á brott, en hvert? Afhverju vilja leigusalar ekki leyfa litlu mjúku blómi eins og mér að búa frítt gegn hlýju brosi? Ég rusla lítið, aðallega flöskur, gæti jafnvel borgað leigu í áldósum?
Ég gæti líka frestað raunveruleikanum og fengið mér námslán.

Mmm, silfurbarkinn Scott Walker að bræða mig hér og nú.

Að öðru. Hversu smekklaust er að vitna í BA-ritgerð án samþykkis höfundar ef umræddur höfundur er 70 ára og allskosta óljóst hvort hann sé meðlimur í samfélagi manna þessa dagana? Ritgerð skilist á mánudag, smá vandamál.

Hlýja, Andrea

fimmtudagur, janúar 28, 2010

Afhverju gat hann ekki bara dáið í bílslysi?

Mér líður eins og ástin hefði geta haldist hrein og ekki sópað út í horn heila míns eins og einhver skítug mistök.

Vegna þess að ég hef svo gaman af klisjum hlustaði ég á I Know it's Over með The Smiths á leiðinni "heim", í myrkri og þoku... ég gekk inn í ljós frá ljósastaur og peran sprakk. Ég hélt ég yrði ekki eldri. Mér líður eins og klisjurnar bara elti mig uppi.

Sem betur fer gúglaði ég Kübler-Ross sorgarlíkanið svo ég get fylgst nákvæmlega með mínu eigin sorgarferli, sem gerir hluti auðveldari. Einmitt núna langar mig bara að faðma öll húsgögnin hérna inni og liggja á teppinu sem bindur stofuna svo virkilega vel saman. Ég veit ekki hvaða stig það er, kannski einhverstaðar á milli bargaining og depression. Það hlítur að vera nokkuð góður árangur eftir einn dag, að vera komin á þriðja eða fjórða stig af fimm. Hver veit, kannski verður dagur eftir þennan. Hinsvegar er ég kannski bara að ljúga að sjálfri mér, ég er að komast að því að ég hef verið nokkuð dugleg við það undanfarið. Kannski vill heilinn minn bara ekki skilja.

Hlýja, Andrea.

fimmtudagur, júní 11, 2009

Hrokafulla ég.

Samkvæmt talningum blögg.com er þetta 200raðasta færslan mín. Hví líður mér ekkert betur?

Jú, vegna þess að ég hef engar tilfinningar. Ég er búin að vera að velta þessu fyrir mér og ég held það sé nokkuð ljóst að ég finn ekki til. Stundum finnst mér eins og ég hafi tilfinningar en hver er ég að dæma um hvort þetta séu mínar tilfinningar en ekki einhvers annars, eða jafnvel fengnar úr einhverjum lagstúf sem ég heyrði í útvarpinu eða þegar einhver dó í einhverri sápuóperu? Hvernig get ég verið viss um að þær séu mínar?

mesta vissa sem ég get haft um að ég hafi tilfinningar er að ég elska líklegast sjálfa mig, því annars væri ég löngu gengin í sjó.

Já, ég er í fýlu.

Kv. Andrea

laugardagur, mars 14, 2009

Stundum er ég mjög ósanngjörn.

er ég aðallega að hugsa um hluti sem ég hef sagt eða gert sem hafa sært aðrar manneskjur. Ég vona að þið áttið ykkur öll á því að ég get verið ansi mikið fífl og leiðindadurgur. Stundum segi ég hluti einfaldlega vegna þess að ég veit ekki betur. En þetta vitið þið eflaust betur en ég. Ef það skildi bæta líðan ykkar eitthvað það þá átta ég mig allavega á því. Hvað sem því líður.

Eftir David Byrne tónleikana sem ég minntist lítillega á í síðustu færslu fór ég á fyllerí. Það vildi svo vel/illa til að sama kvöld var verið að halda þorrablót Íslendinga í New York og síðan við Sindri höfðum ekkert betra að gera hringdum við í Sólu, barnfóstruna hennar Ísadóru, og fengum hnitin í SMSi. Nú, þegar við komum var hákarlinn búinn og mestallt áfengið, en við fundum gengi af ungum Íslendingum á einhverjum svakabömmer sitjandi á tröppunum á einhverri kirkju. Það er nú alveg eftir íslensku þjóðinni að halda heiðið áfengissvall í kirkju. Allavega, ég stökk inn til þess að fara á klósettið og náði byrjunartónunum í Gleðibankanum, en þegar ég gekk í gegnum salinn áttaði ég mig loks á því hvað ég hafði komið mér út í - ónáttúrulegasta samansafn af fólki sem nokkurtíman slysaðist til þess að deila ríkisborgararétt.

Partíið var augljóslega að enda komið og áfengið líka, fyrir utan eina einmana brennivínsflösku sem ég átti endurfundi með, en við höfðum ekki talast við síðan í sumarbústaðarferðinni hérna forðum en þá enduðu samskipti okkar með ferð að vaskinum og samtali við hálfmeltan hamborgara sem hefði betur legið ósnert. Í þetta sinn skildust leiðir þó ekki hjá vaskinum, heldur í Kóreuhverfinu, þar sem við enduðum með nokkrum gangandi jakkafötum og herðatrjám (þó aðeins eftir að þeim hafði verið neitaður aðgangur að einhverjum hippogkúl skemmtistað í einhverjum kjallara... ég hélt ég myndi æla af hlátri þegar ég heyrði þessa setningu "Dísöss, hvernig heim búum við í þegar 4 módel og einn gæi komast ekki inn á skemmtistað. Ég meina, wott?!". Já, í alvöru). Stefnunni var heitið á karíókíbar og ekkert minna kom til greina en að leigja herbergi. Einn af ungu sjálfstæðismönnunum kikkstartaði kvöldinu með afar ólöglegri útgáfu af Du Hast. Fyrirsæturnar voru álíka illa á sig komnar, tóku Total Eclipse of the Heart tvisvar sinnum í röð og fóru að gráta. Þegar drykkirnir fóru að streyma inn varð kvöldið aðeins ásættanlegra, og endaði á því að vera ansi fyndið og skemmtilegt. Jafnvel ég, jungfrú horfi-úr-hásætinu-mínu-á-hina-með-fyrirlitningarsvip, tók nokkra tímalausa slagara á borð við Heartbreaker með Pat Benatar og Don't Bring Me Down með ELO, og skemmti mér og öðrum stórfenglega vel með ýmsum skrípalátum. Þrátt fyrir að hafa staupað brennivín og smánað mig í karókí fannst mér kvöldið hafa heppnast ágætlega, ef ekki bara fyrir þær sakir að ég gat talað íslensku og þurfti ekki að sanna mig fyrir neinum.

Jæja,
ætli ég sé ekki nógu þreytt til að skríða upp í með Önnu Kareninu og sjá til hvort ég geti sofnað. Þetta hefur verið ánægjulegt.

Kv. Andrea

laugardagur, febrúar 28, 2009

Æ, æ og ó.

Ég er með heimþrá. Ég get ekkert hamið hana. Það er ekki það að mér leiðist hérna í borginni sem aldrei sefur, né er föðurlandið gullvarma slegið í huga mér þessar stundirnar... svo best ég skil eru allir blankir og byrjaðir að borða tófú, mér finnst ég ekki vera að missa af miklu. Það er annað.

Mér finnst eins og borgin sé að kæfa mig. Hún liggur á mér eins og mara. Það eru háar byggingar allstaðar, maður sér ekki fóta sinna skil fyrir endalausum straum fólks og faratækja. Ég sakna hafsins. Ég sakna víðáttunnar og hráleikans. Borgin er vissulega hrá en ekki á sama hátt og Ísland er hrátt. Ég er skömmustulega mikill Íslendingur á köflum... hálf vandræðalegt. Ég sakna vina minna heima og fjölskyldunnar minnar sem er að þreyja þorra as we speak.

Kannski er ég bara stressuð útaf þessu portfólíódæmi... tíminn er að renna út og ég er ennþá ósátt. Jæja, það er laugardagur og ég er að fara á tónleika með David Byrne, vonandi get ég fengið mér einhvern bjór líka og kannski hætt að hugsa svona neikvætt.

Hlýja, Andrea